Fréttir

Kona formaður Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur – eftir 147 ár.

Nýlega tók  Elsa Haraldsdóttir,  við formennsku hjá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur. Er það í fyrsta sinn í 147 ára sögu félagsins, sem kona er við stjórnvölinn. Elsa er löngu þekkt fyrir frumkvöðlastarf sitt og brennandi áhuga á mönnum og málefnum. Hún hefur átt þátt í mikilli framþróun og menntun innan raða fagfólks í hárgreiðslu.

Elsa hefur rekið Hárgreiðslustofuna Salon Veh ásamt því að vera fulltrúi Redken á Íslandi. Iðnmenntun Elsu, hæfileikar og fagmennska hafa borið hróður hennar víða og hefur hún t.d. verið í framvarðasveit Intercoiffure Mondial, alþjóðasamtökum hátísku hárgreiðslufólks.

Iðnaðarmannafélagið er merk stofnun sem átti þátt í að setja á stofn Iðnskólann í Reykjavík og er núna m.a. aðili að Tækniskólanum. Iðnaðarmannafélagið hefur síðastliðin ár heiðrað nýsveina sem ljúka burtfararprófi í starfsmenntun og á þessu ári voru 123 nýsveinar úr 12 verkmenntaskólum um land allt veitt viðurkenning.

Iðnaðarmannafélagið er ekki bara karlar með hamra heldur spannar það allar starfsmenntir og eru félagsmenn úr nánast öllum starfsgreinum í félaginu. Það er því vel við hæfi að öflug kona taki við kyndlinum.